föstudagur, nóvember 25, 2005

Núna er þetta bara allt búið, ég er búinn með námið. Ég skilaði inn foliunni á fimmtudaginn 17. nóvember og síðan var hún metin af dómurum á þriðjudaginn síðasta. Þetta gekk bara allt mjög vel og ég fékk mjög góðar umsagnir um foliuna, núna er bara að bíða eftir einkunninni. Á miðvikudaginn var síðan opnun á sýningu verka þeirra sem voru á listabrautinni. Þetta var hin glæsilegasta sýning og mikill fjöldi af fólki sem var þarna samankominn. Þetta var líka mitt síðasta tækifæri til að kveðja mikið af mannskapnum áður en maður heldur heim á leið. Ég á reyndar eftir að sjá einhverja áður en ég fer heim en aðra ekki og kannski aldrei aftur.
Á eftir er ég að fara í helgarferð með handboltafólkinu. Við ætlum að fara á stað sem heitir Sorrento og er í ca. klukkustundar fjarlægð frá Melbourne, þar ætlum við að tjalda og hafa það gott. Það má segja að þetta verði mitt kveðjupartý fyrir þennan hóp. Við komum síðan aftur á sunnudaginn en ég veit ekki hvenær áætlaður komutími er.
Á mánudaginn fer ég svo með Thomas í þessa 4-5 daga ferð. Ég held að við ætlum að leggja snemma af stað á mánudagsmorgninum, þannig að maður verður örugglega nett þreyttur eftir helgina.

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Á fimmtudaginn skilaði ég inn folíunni og gekk það bara nokkuð vel. Við vorum að sýna folíuna restinni af bekknum og kennaranum en það var ekki verið að dæma hana í þetta skiptið. En á þriðjudaginn verður folian metin af 5 dómurum, þar af 3 sem ég hef aldrei hitt áður.
Á föstudaginn fór ég síðan í afmælisglens hjá Bridget en hún varð 24 ára þann daginn. Ekki leiðinlegt að eiga afmæli og klára skólann sama daginn.
Það er ekki mikið sem maður hefur annars verið að gera, maður er bara að taka því rólega þessa dagana og undirbúa sig fyrir þriðjudaginn.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Já, þá styttist nú allverulega í þetta hjá mér. Á fimmtudaginn mun ég skila inn foliunni og þá verður sko svaka fjör. Núna er nánast allur undirbúningurinn búinn, er búinn að kaupa box sem ég ætla að hafa myndirnar í og síðan mun ég sækja myndirnar úr prentun á morgun. Sá drengur sem er að prenta þær er sá allra hjálpsamasti og vingjarnlegi maður sem ég hef á ævi minni hitt. Hann er með lítið prentfyrirtæki en þetta er mjög persónulegt hjá honum og því skoðar hann yfir myndirnar með manni og hjálpar við val á pappírnum, ég hef sko ekki undan neinu að kvarta.
Í kvöld fór ég svo í bíó með Ian svona aðeins til að brjóta upp daginn. Við fórum að sjá myndina "Kiss, kiss, bang, bang" með Val Kilmer og Robert Downey Jr. Hér er sko snilldarræma á ferðinni, mjög fyndin mynd og skemmtilegur söguþráður sem heldur manni vel við efnið allan tímann. Ég mæli því hiklaust með þessari mynd næst þegar þið ætlið að kíkja í kvikmyndahúsin á klakanum eða hvar svo sem er í heiminum.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Þá er þetta allt saman að fara að klárast hérna í Ástralíunni. Ég einungis eftir að vera hérna í 3 1/2 viku og þá er Jónsinn floginn á brott.
Annars er maður alveg á hundraðinu þessa dagana að gera foliuna klára fyrir fimmtudaginn. Ég er búinn að taka allar myndirnar og núna er maður bara að klára að vinna þær í tölvunni og síðan fer ég með þær í prentun á mánudagsmorgninum og fæ þær aftur á miðvikudeginum. Ég er mjög sáttur við foliuna mína og ég hef fengið fínar umsagnir frá þeim sem séð hafa myndirnar mínar.
Ég var að tala við einn kennarann minn í gær, Thomas (frá Þýskalandi), og við ætlum að fara í 4 daga ferð þann 28. nóvember. Tengdabróðir hans er að koma í heimsókn frá Þýskalandi og því ætlum við að nota tækifærið og fara í smá ferð og taka því rólega. Það er strönd ca. 300m frá staðnum þar sem við gistum á og því er bara að vona að veðrið muni leika við okkur og maður nái sér í smá lit áður en maður kemur heim í veturinn.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Þá er maður kominn heim eftir 3 daga dvöl í Sydney. Ég flaug klukkan 6.15 á föstudagsmorgninum, ekki mátti nú miklu muna að ég hefði misst af fluginu þar sem að ég vaknaði full seint. Ég vaknaði klukkan 4 en síðan sofnaði ég aftur og vaknaði aftur klukkan 5.10, þá þurfti ég að hringja á leigubíl og ég var kominn út á flugvöll um 5.50. Ég þurfti að drífa mig að tékka mig inn og fara að hliðinu þar sem byrjað var að hleypa inn í vélina. Þetta hafðist allt á endanum.
Ég eyddi föstudeginum í miðbæ Sydney með Sebastian sem var líka í liðinu. Við tókum smá túrista session og kíktum á óperuhúsið og eitthvað fleira í miðbænum. En síðan fórum við um 3 leytið á hótelið en það er nokkuð út úr borginni.
Við spiluðum síðan 2 leiki á laugardeginum, unnum einn og töpuðum hinum. Við spiluðum því um 3. sætið á sunnudeginum og unnum þann leik. Ég meiddist aðeins á öxlinni í þeim og er öxlin nokkuð slæm ennþá. Ég vona nú að það lagist fljótlega. Kvefið er alveg farið og þá getur maður loksins farið í ræktina aftur eftir um 2 vikna "frí".
Annars er nú lítið að frétta, folian er komin gott skrið. Ég er búinn að taka langflestar myndirnar en síðan þarf maður að fara að huga að prentun á þeim. Það er nokkuð furðuleg tilfinning að hugsa til þess að í næstu viku verð ég búinn með námið, 3 ár búin eins og hendi væri veifað.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Veðurfræðingarnir klikkuðu aðeins núna, ekki mikið reyndar. Því hitinn í gær fór upp í 32 gráður og 33 í dag og þá á Jónsinn mjög erfitt með svefn. Þegar ég kom heim í dag eftir smá útiveru að þá kíkti ég á hitamælirinn á fjarstýringunni fyrir loftkælinguna og þá stóð á honum 30 gráður. Ég var ekki lengur að setja loftkælinguna á fullt og hún er búin að vera núna í gangi í nokkrar klukkustundir og hitinn er kominn niður í 27 gráður. Maður er því búinn að drekka ótæpilega af vökva seinustu 2 daga.
Í gær var almennur frídagur vegna kappreiðar, ekki skil ég þennan áhuga á dvergum sitjandi á fjórfættum ofvöxnum spendýrum á harðarhlaupum. Ég og Ian fórum á einn bar í gær og fengum okkur nokkra öllara í hitanum. Það var fáránlegt þegar við fórum út af loftkældum barnum og stigum út, þvílíkur hitamunur á þessu tvennu. Eins í dag þegar mér var orðið mjög heitt að þá brá ég mér inn í einhverja loftkælda búðina.
Ég fór til læknis í morgun vegna þessa kvefs og hósta sem ég er búinn að vera með núna í næstum 2 vikur. Hún setti mig á pensillín kúr sem verður í ca. viku. Ég ætla rétt að vona að þetta fari að lagast enda er ég orðinn langþreyttur á þessu, get varla sofið á næturnar vegna þessa bölvaða hósta.

mánudagur, október 31, 2005

Ég verð nú bara að monta mig og reyndar í leiðinni að kvarta yfir þessu. En málið er að það er komið sumar hér í Melbourne, hitinn í dag verður 25 stig, 28 á morgun, 32 á miðvikudaginn, 27 á fimmtudaginn og síðan verður þetta eitthvað svipað um helgina. Vona að ykkur líði vel í kuldanum.....